Skinnerbúr

Gróf teikning af Skinnerbúri

Skinnerbúr er búr sem er oftast notað á tilraunastofu til að rannsaka hegðun dýra. B. F. Skinner bjó til fyrsta slíka búrið á meðan hann var nemandi í Harvard háskóla í kringum 1930. Það er bæði notað til að rannsaka virka skilyrðingu sem og klassíska skilyrðingu.

Gerð

Búrið sjálft er eins konar kassi, oft gegnsær, sem er nógu stór til að dýrið sem á að rannsaka komist auðveldlega fyrir í því. Tilraunadýrin eru oftast fuglar, rottur eða mýs. Búrin eru oft höfð í herbergjum sem eru hljóðheld.

Skinnerbúr eru með að minnsta kosti einum eða fleiri rofum sem nema þegar dýrið í búrinu ýtir á hann. Ef dýrið í búrinu er rotta, sem dæmi, er rofinn yfirleitt stöng, en ef fugl er í búrinu er rofinn gjarnan flötur sem fuglinn getur goggað í. Rofarnir eru svo tengdir í skráningartæki, sem er gjarnan tölva eða annað tæki, en skráningartækið skráir þegar ýtt er á þá. Rofarnir eru þannig úr garði gerðir að ýta verður með vissum krafti á þá til að þeir sendi frá sér boð til skráningartækisins.

Annað einkenni skinnerbúra er að hægt er að birta áreiti inni í búrinu. Áreitið getur verið ljós, hljóð, myndir (t.d. á LCD-skjá), matur, vatn eða hvað eina.

Búrin geta líka verið með gólfi sem er gert úr eins konar neti, sem má leiða rafmagn í. Í sumum löndum, þar á meðal á Íslandi[1], þarf leyfi yfirvalda til að gefa dýrum raflost.

Vegna einfaldleika síns og vegna þess að umhverfi dýrsins er stjórnað má nota það til að gera tilraunir. Margs konar atferli og nám dýra má rannsaka í búrum sem þessum.

Skinnerbúrið var og er mikið notað við rannsóknir. Það gerði mönnum kleift að rannsaka svörun (t.d. ýta á stöng) sem sérstaka breytu sem væri undir stjórn annarrar breytu (áreitis). Þetta gerði Skinner kleift að rannsaka hegðun dýranna og þróa kenningar sínar um atferli.

Rétt er að benda á að jafnvel þó að það sé ótvíræður kostur að skráning á atferli í búrum sem þessum séu mjög hlutlægar og nákvæmar, þá verða smáatriði útundan í þessum mælingum. Skinner sjálfur skrifaði um þetta vandamál við allar mælingar á hegðun - sem sagt óháð búrinu sem slíku. Hann benti á að það er ekki hægt að einangra hegðun og smáatriði verða útundan í mælingum. Hann nefndi sem dæmi fugl sem fengi mat þegar hann færði höfuðið fyrir ofan vissa hæðarlínu; dýrið myndi vissulega gera það oftar og það mætti mæla með einhverjum hætti, en í leiðinni er ekki mælt hvernig önnur hegðun breytist (t.d. önnur hegðun minnkar, eða hvernig dýrið sveigir höfuð sitt frekar en áður). Skinner benti jafnframt á að þetta væri ekki endilega stórt vandamál[2].

Heimildir

  1. Sjá lög nr. 15/1994.
  2. B. F. Skinner (1953/1965). Science and Human Behavior, bls. 66-67. New York: The Free Press.