Laxárdalur hinn ytri liggur í suður framan af Skaganum. Stórt fjall sem heitir Hrafnagilsfjall er á milli Laxárdals og Hallárdals, næsta dals vestan við, í Húnavatnssýslu. Tindastóll liggur austan að Laxárdal, og gengur fjallið í norður að sjó, vestanvert við Skagafjörð. Laxá, sem dalurinn er kenndur við, rennur eftir honum endilöngum. Reykjaströnd liggur meðfram firðinum frá Tindastóli inn að Gönguskarðsá. Áin heitir eftir Gönguskörðum, sem eru fram og upp undan ströndinni. Kolugafjall í Húnavatnssýslu er á mörkunum milli Norðurárdals í Húnavatnssýslu og Gönguskarða. Skefilsstaðahreppur hafði innan sinna marka tvö byggðarlög sem voru aðskilin af náttúrunnar hendi. Það fyrra er Laxárdalur og hitt er Skaginn. Samkvæmt gömlu hreppamörkunum var Sauðárhreppur að suðaustan, en að norðan og norðaustan nær Skefilsstaðahreppur alveg til sjávarins. Að vestan við hann var Vindhælishreppur í Húnavatnssýslu. Forn þingstaður hreppsins var að Skefilsstöðum á Skaga.[1]
Jarðir í Skefilsstaðahreppi sem voru seldar frá Hólastóli 1802
Hér verða taldar jarðir í Skefilsstaðahreppi samkvæmt heimildum um sölu Hólastólsjarða 1802, það er að segja jarðir sem voru í eigu stólsins og voru seldar það ár. Nafn jarðanna kemur fram, dýrleiki, landskuld, kúgildi og söluverð.[2]
Þorbjargarstaðir 5 hundr., lsk. 40 áln., Ekkert kúg. Verð 42 rks. (Miðað við 1840).
Samgöngur og fornar leiðir
Nokkrar fornar leiðir liggja úr Laxárdal til nærliggjandi byggðarlaga.
Fyrsta leiðin lá sunnan Laxárdals, frá Laxárdalsheiði sem er sunnan Tindastóls, austur um Gönguskörð til Sauðárkróks. Farið var upp heiðina suður að Lambá. Farið var norðan við Lambá og yfir ána ofan við foss sem þar er. Þaðan lá leiðin suður vesturhlíðar Tindastóls um svonefndar Hróarsgötur þar til kemur að Hraksíðuá. Sú á fellur í Gönguskarðsá við Veðramót. Þaðan var farið um rudda götutroðninga um Skarðsmela á vöðum, en síðar kom brú þar um 1900. Þaðan liggur tiltölulega greið leið til Sauðárkróks.
Önnur leið var vetrarleið og var þá farið Kolugafjall milli Laxár og Kallár, niður á Laxárdalsheiði eftir Gönguskörðum. Leiðin vestan að lá þá yfir Þverárfjall úr Norðurárdal, eftir Engjadal vestan Sandfells, úr Hallárdal á vaði um leið sem var um tveggja kílómetra löng sunnan við Illugastaði. Þegar yfir Laxá var komið lá leiðin upp með Reiðlæk, gegnum Reiðskarð, sunnan við Herjólfshnjúk og áfram yfir Kolugafjall í austurátt.
Þriðja leiðin var yfir Þverárfjall, niður Norðurárdal og til Blönduóss, eða eftir Laxárdalsheiði til Sauðárkróks.
Fjórða leiðin, sem kölluð var Skíðastaðavegur, liggur frá Illugastöðum eftir Engjadal, vestan við Sandfell, niður Hallárdal til Skagastrandar.
Fimmta leiðin, og líklega sú elsta, liggur vestur úr Laxárdal, yfir Hafragilsfjall, og yfir Laxá hjá Skíðastöðum upp með Stóragili þaðan sem lagt var á Hafragilsfjall. Haldið er haldið í vestur norðan við Sandfell og komið niður í botn Hallárdals á Engjadalsleiðina til Skagastrandar.
Að síðustu skal nefna leið sem sjaldan er farin, enda hættuleg. Þá er farið frá Sævarlandi eftir fjörum norður fyrir Tindastól og inn með fjallinu að austanverðu inn að Reykjum á Reykjaströnd. Þetta er aðeins hægt á stórstraumsfjöru og þegar sjór er alveg ládauður. Gengið er undir þverhnípt hengiflug Tindastóls, þar sem alltaf má vænta grjóhruns úr fjallinu. Fyrsta bílferð yfir Laxárdalsheiði var farin sumarið 1933. Bakká og Selá voru brúaðar 1929, en Fossá var brúuð 1910. Vegur frá Sauðárkróki upp Gönguskörð norður Laxárdalsheiði og á Kalláreyrar var gerður 1933, auk þess sem gamli hesta- og kerruvegurinn norður Laxárdalsheiði var ruddur sama ár. Við þetta komst Skefilsstaðahreppur í bílfært vegasamband við aðrar sveitir Skagafjarðar.[3]
Íbúaþróun
Íbúum á þessu svæði hefur fækkað á undanförnum áratugum. Hér kemur tafla yfir íbúaþróunina frá 1951 til 1997. Eins og sést á töflunni hér að neðan voru íbúar hreppsins aðeins 45 árið áður en hann sameinaðist við Sveitarfélagið Skagafjörð einu ári síðar. Af þeim voru 23 karlar og 22 konur.