Sjúkrahús

Sjúkrahús - Brasilía

Sjúkrahús eða spítali er stofnun þar sem sjúklingum er veitt meðferð við sjúkdómum og slysum. Þar starfa meðal annars læknar og hjúkrunarfræðingar.

Orðið „spítali“ er dregið af latnesku orði, hospes („gestgjafi“). Af sama stofni er orðið hótel. Fyrr á tímum var rekstur sjúkrahúsa oft kostaður af trúarsamtökum eða auðugum einstaklingum og þá voru þau oft jafnframt ölmusustofnanir fyrir fátæklinga og gistiheimili fyrir pílagríma. Nú á dögum eru flest sjúkrahús fjármögnuð með opinberum fjárveitingum, af einkafyrirtækjum, sjúkratryggingafélögum eða hjálparstofnunum.

Sum sjúkrahús eru aðeins ein bygging, önnur eru í mörgum húsum sem ýmist eru öll á sömu lóð eða dreifð víðar. Hérlendis er Landspítalinn til dæmis í mörgum húsum á Landspítalalóðinni við Hringbraut og einnig í Fossvogi, auk þess sem ýmsar deildir hans eru dreifðar um Reykjavík og jafnvel víðar.

Starfsemi sjúkrahúsa

Sumir sjúklingar eru lagðir inn á legudeildir sjúkrahúsa og dvelja þar í lengri eða skemmri tíma til að gangast undir rannsóknir, aðgerðir, lyfjameðferð eða aðra meðhöndlun. Aðrir eru göngudeildarsjúklingar og eru ekki lagðir inn, heldur gangast undir rannsóknir eða aðgerðir eða fá aðra meðferð og eru síðan sendir heim.

Flest sjúkrahús eru almenn sjúkrahús, geta meðhöndlað margs konar ólíka sjúkdóma og áverka. Þau eru oft mjög stór og skipt í margar deildir. Þar er yfirleitt slysadeild og/eða bráðamóttaka og þangað leitar fólk sem orðið hefur fyrir slysi eða þarf á bráðri læknishjálp að halda. Sumir eru fluttir þangað í sjúkrabíl en aðrir koma á eigin vegum. Á gjörgæsludeildum liggja sjúklingar sem þurfa á sérstaklega miku eftirliti að halda vegna veikinda eða slysa eða eftir aðgerð. Oft eru svo sérstakar deildir fyrir hverja tegund sjúkdóma, til dæmis hjartasjúkdómadeild, taugalækningadeild, lungnadeild, æðasjúkdómadeild, geðdeild, augndeild og svo framvegis, eða fyrir tiltekna hópa sjúklinga, svo sem barnadeild, fæðingardeild og öldrunarlækningadeild.

Sérhæfð sjúkrahús sinna eingöngu tilteknum sjúkdómstegundum og má nefna geðsjúkrahús sem dæmi. Sum sjúkrahús eru tengd háskólum og þar eru stundaðar rannsóknir á sviði læknisfræði og kennsla læknanema.

Heimildir