Sigríður Hannesdóttir (13. mars 1932 – 28. júní 2024) var leikkona og stofnandi Brúðubílsins.
Sigríður var fædd 13. mars 1932 og sleit barnsskónum í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Hannes Hreinsson, verkamaður d. 1982 og Jóhanna Pétursdóttir, verkakona d. 1990.
Á unglingsárunum lærði Sigríður hjá Ævari Kvaran áður en hún hóf nám við Leiklistarskólann. Eftir að hafa klárað leiklistarnámið flutti Sigríður til Englands þar sem hún bjó og starfaði í eitt ár.
Þegar hún sneri til baka til Íslands kynntist hún Ottó Erni Péturssyni, starfsmanni ameríska sendiráðsins í Reykjavík, en þau gengu í hjónaband árið 1957.
Sigríður Hannesdóttir söng gamanvísur í samkomuhúsum víðsvegar um landið áður en hún stofnaði Brúðubilin árið 1976 ásamt Jóni Guðmundssyni. Saman lögðu þau af stað í sína fyrstu ferð á Lödu-skutbíl sem Sigríður hafði fjárfest í. Sýningar Brúðubílsins voru fyrst um sinn haldnar á gæsluvöllum í Reykjavík en fljótlega útvíkkaði starfsemin og voru til að mynda haldnar sýningar í Skálatúni, viðKópavogshæli og úti á landi.
Þegar Jón Guðmundsson sagði skilið við Brúðubílinn kom Helga Steffensen inn og gáfu þær Sigríður út tvær plötur með Brúðubílnum.
Sigríður var skemmtileg kona og hafði hvetjandi áhrif á umhverfi sitt en störf hennar bera þess skýr merki. Henni er lýst sem mikilli barnakonu og varði hún starfsævi sinni í þágu barna. Hún kenndi meðal annars framsögn og leiklist í grunnskólum og um tíma sá hún um íslenskukennslu fyrir börn starfsmanna ameríska sendiráðsins.
Einnig var hún þekkt fyrir að ljá Krumma rödd sína í sjónvarpsþáttunum Stundinni okkar árið 1967.
Á níræðisaldri gaf Sigríður út disk með gamanvísunum sem hún hafði áður sungið. En vísnatextarnir voru margir hverjir eftir hana sjálfa.
Eiginmaður Sigríðar lést árið 2017.
Börn Sigríðar og Ottós eru Birgir Ottósson f. 1958 giftur Elsu Dóru Grétarsdóttur f. 1959, Eva Ottósdóttir f. 1959 gift Eini Ingólfssyni f. 1954, Örn Ottósson f. 1963 giftur Kristbjörgu Lindu Cooper f. 1966 og Hannes Ottósson f. 1969 giftur Kristjönu Hrafnsdóttur f. 1973. Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin ellefu.