Radar le robot

Radar le Robot (íslenska: Vélmennið Radar) er önnur bókin í ritröðinni Svalur & Valur - sérútgáfa (franska: Spirou et Fantasio Hors Série) og hefur að geyma þrjár sögur um Sval og Val eftir Franquin sem samdar voru áður en hinn formlegi bókaflokkur um þá félaga hóf göngu sína. Hún kom út í Belgíu árið 1989. Bókin sem slík hefur ekki verið gefin út á íslensku, en sögur hennar hafa þó birst í íslenskum þýðingum.

Sögurnar

Titilsagan: Radar le Robot birtist undir heitinu Vitskerti prófessorinn í bókinni Arfurinn - Vitskerti prófessorinn, sem Froskur útgáfa gaf út árið 2013.

Önnur saga bókarinnar: Spirou et les plans du robot (íslenska: Vélmennisuppdrátturinn) er framhald titilsögunnar og birtist í bókinni Svalur í hringnum, sem Froskur útgáfa gaf út 2014. Hún er jafnframt ein af sögunum í Quatre aventures de Spirou et Fantasio, sem telst fyrsta bókin í Svals & Vals-sagnaflokknum.

Þriðja sagan: Spirou fait du cheval (íslenska: Svalur knapi) birtist jafnframt í bókinni um Sval í hringnum og Quatre aventures de Spirou et Fantasio.

Útgáfa

Árið 1976 hóf Dupuis-forlagið útgáfu á nýrri ritröð: Bernskubrekum (franska: Péchés de jeunesse). Þar gaf að líta ýmist gamalt efni frá upphafsárum vinsælla myndasöguflokka. L'Héritage og Radar le robot voru tvær fyrstu bækurnar í ritröðinni. Þær voru endurútgefnar árið 1989 og þá látnar marka upphaf nýs bókaflokks sem helgaður er Sval og Val.