Oddur Álason

Oddur Álason (Ólason) (d. 13. janúar 1234) var íslenskur höfðingi á Sturlungaöld. Hann bjó á Söndum í Dýrafirði og var sonur Ála hins auðga Oddssonar. Oddur var mikill vinur og bandamaður Sturlu Sighvatssonar. Hann giftist Steinunni dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar en upp úr 1230 var hann í kærleikum við Þórdísi Snorradóttur, ekkju Þorvaldar Vatnsfirðings. Órækja bróðir hennar, sem þá fór með héraðsvöld við Ísafjarðardjúp, taldi þau sitja á svikráðum við sig eftir að honum barst í hendur bréf sem síðar þótti víst að væri falsað og fór að Oddi, sem þá var á Eyri við Arnarfjörð og lét drepa hann.

Oddur átti nokkur börn með konu sinni. Þekktastur er Hrafn Oddsson hirðstjóri og riddari en einnig má nefna Herdísi konu Svarthöfða Dufgussonar.