Lausitz

Kort sem sýnir staðsetningu Lausitz í Evrópu

Lausitz (þýska: Lausitz, hásorbíska: Łužica, lágsorbíska: Łužyca, pólska: Łużyce, tékkneska: Lužice) er sögulegt hérað í Mið-Evrópu sem í dag er hluti af þýsku fylkjunum Saxlandi og Brandenborg og pólsku héruðunum Lubusz og Neðri-Slesíu. Það nær frá ánum Bóbr og Kwisa í austri að árdal Saxelfar í vestri. Héraðið skiptist í Efri-Lausitz (suðurhlutinn) og Neðri-Lausitz (norðurhlutinn). Stærsta borgin er Cottbus. Í Lausitz býr sorbískumælandi minnihluti en sorbar hafa búið á þessu svæði frá 6. öld.

Vestur-Slavar settust að í héraðinu snemma á miðöldum. Á 10. öld var Neðri-Lausitz gerð að markgreifadæminu Lausitz og Efri-Lausitz nokkru síðar að markgreifadæminu Meissen. Konungsríkið Pólland gerði skömmu síðar tilkall til svæðisins en á 14. öld varð það hluti af löndum bæheimsku krúnunnar. Í Þrjátíu ára stríðinu varð stærstur hluti Lausitz hluti af kjörfurstadæminu Saxlandi. Eftir Napóleonsstyrjaldirnar varð Neðri-Lausitz hluti af Prússlandi. Eftir Síðari heimsstyrjöld var Lausitz skipt milli Þýskalands og Póllands eftir Oder-Neisse-línunni.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.