Kristín Guðbrandsdóttir (1574 – 1. október 1652) var íslensk kona á 16. og 17. öld, húsfreyja í Ögri við Ísafjarðardjúp og kona Ara Magnússonar bónda þar.
Kristín var dóttir Guðbrandar Þorlákssonar biskups á Hólum og Halldóru Árnadóttur konu hans. Síðsumars 1594 kom Ari í Ögri, sem var þá einn helsti höfðingi landsins og hafði erft mikinn auð við lát föður síns um vorið, til Hóla með fríðu föruneyti til að biðja Kristínar. Biskup mun hafa tekið því dræmt því hann átti í útistöðum við Jón lögmann, föðurbróður Ara. Sagt er að Ari hafi þá riðið á brott en Kristín hafði séð hann út um glugga á biskupssetrinu og litist vel á manninn og þegar faðir hennar sagði henni hvert erindi hans hefði verið gat hún talið hann á að láta senda eftir biðlinum aftur. Var kaupmáli þeirra gerður á Hólum 22. september 1594. Ari lofaði við það tækifæri biskupi að vera börnum herra Guðbrands til styrks og forsvars utanlands og innan, hvað honum er mögulegt og við hverja, sem er að eiga. Ekki þótti Ari þó efna það loforð vel.
Kristín var sögð hin mesta ágætiskona. Þau Ari bjuggu alla tíð í Ögri, voru gift í nærri 60 ár og dóu með tíu daga millibili árið 1652. Þau eignuðust fimm börn, Magnús sýslumann á Reykhólum, Þorlák bónda í Súðavík, Halldóru húsfreyju á Þingeyrum, Helgu, sem dó ógift og Jón, prófast í Vatnsfirði.
Kristín gerði testamentisbréf (erfðaskrá) 25. nóvember 1632 og er þar talið upp mikið af kvensilfri og einnig hannyrðum. Ári síðar gaf hún Þorláki syni sínum bækur, 30 hundraða virði, sem hún átti á Hólum og hefur erft eftir Guðbrand biskup, sem þá var dáinn fyrir nokkrum árum.
Heimildir