Kormákur/Hvöt er knattspyrnufélag sem rekið er í samvinnu tveggja félaga í Húnaþingi; Ungmennafélagið Hvöt (Blönduósi) og Ungmennafélagið Kormákur (Hvammstanga). Liðið tók fyrst þátt í bikarkeppni KSÍ árið 2012 og miðast stofnár við það, en frá 2013 hefur liðið leikið í Íslandsmótum KSÍ.
Af þeim liðum sem tefla fram samstarfsliðum tveggja félaga á Íslandsmóti er hvergi jafn langt á milli varnarþinga og hvergi er jafn langt í vetraræfingaaðstöðu á gervigrasvelli.
Af öllum liðum sem leika í efstu þremur deildum Íslandsmótsins, og hefur gert í 10+ ár, er Kormákur/Hvöt það eina sem hefur aldrei fallið niður um deild.
Kormákur/Hvöt lék í 4. deild karla árin 2012 til 2021, 3. deild 2022-2023 og 2. deild 2024.
Liðið leikur í bleikum treyjum/svörtum buxum (heima) og hvítum treyjum/rauðum buxum (úti). Helstu styrktaraðilar félagsins eru Kaupfélag Skagfirðinga, Teni Blönduósi, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, VIlko, Ísgel, GN Hópbílar og fleiri fyrirtæki á svæðinu.[1]
Heimavellir
Heimavellir liðsins eru Blönduósvöllur og Sjávarborgarvöllur á Hvammstanga. Báðir vellirnir eru grasvellir, sem leiðir til þess að oft þarf að leika fyrstu leiki árinsins á gervigrasvöllum í nágrenninu. Meðalaðsókn á heimaleiki liðsins hafa jafnan verið með því besta í þeim deildum sem liðið leikur hverju sinni,[heimild vantar] en hámarki nær hún á bæjarhátíðum Blönduóss (Húnavaka) og Hvammstanga (Eldur í Húnaþingi).
Heimavellir Kormáks/Hvatar voru lengi óvinnandi vígi, þar sem liðið tapaði ekki leik á Blönduósi eða Hvammstanga í á þriðja ár í kringum árið 2020.