Þingstaður var í Kópavogi og 1574 var gefið út konungsbréf sem mælti um að Alþingi yrði flutt af Þingvöllum í Kópavog.[1] Það kom þó aldrei til framkvæmda. Kópavogur hafði það sér einna helst til framdráttar að vera miðja vegu milli Reykjavíkur og Bessastaða þar sem embættismenn konungs dvöldu.
Elsta ritaða heimild um þinghald í Kópavogi er dómur dagsettur 1. júní 1523 þegar Týli Pétursson, fyrrum hirðstjóri, var dæmdur fyrir aðför að þáverandi hirðstjóra Hannesi Eggertssyni. 1753 var þingið flutt til Reykjavíkur.
Þekktasti atburður í sögu Kópavogsþings er án efa Kópavogsfundurinn. 28. júlí árið 1662 gengu íslenskir forystumenn til fundar við Henrik Bjelke höfuðsmann að þingstaðnum í Kópavogi. Þar var gengið frá erfðahyllingu Friðriks 3. Danakonungs og einveldisskuldbindingu Íslendinga, tilskipunin hafði komið of seint til að hægt hefði verið að vinna eiðana á Alþingi og voru forsvarsmennirnir 107 því boðaðir í Kópavog.
Heimildir
- Guðrún Sveinbjarnardóttir, Rannsókn á Kópavogsþingstað, Kópavogskaupstaður 1986
Tilvísanir