Jón Jónsson Aðils (25. apríl 1869 – 5. júlí 1920) var íslenskursagnfræðingur. Honum hefur verið lýst sem „afkastamesta sagnfræðingi Íslands á fyrri hluta tuttugustu aldar“.[1] Sagnfræðingar og stjórnmálafræðingar telja að Jón hafi haft mikil áhrif á orðræðu íslenskrar þjóðernishyggju og að áhrifa hans gæti enn í umræðu um fullveldismál Íslands, meðal annars í tengslum við Evrópusamvinnu.[2][3][4][5][6]
Framlög til íslenskrar sagnfræði
Jón er þekktur fyrir að hafa skipt sögu Íslands í gullaldarskeið, hnignunarskeið og auðmýkingarskeið. Í frásögnum Jóns er gullöldin talin hafa hafist með upphafi landnámsaldar árið 874 og náð hápunkti á tíma þjóðveldisins en hafi liðið undir lok þegar Ísland gekkst undir stjórn Noregskonungs.[7] Á tíma erlendrar stjórnar hafi íslensku þjóðinni hnignað og hún að lokum verið auðmýkt.[7][2] Boðskapur Jóns var sá að á tíma innlendrar stjórnar hafi þjóðin verið velmegandi, iðin og listræn en að henni hafi hrakað undir erlendri stjórn. Jón færði þó rök fyrir því að sérhver Íslendingur bæri enn innra með sér frelsisþrá og ættjarðarást og að aðeins þyrfti að vekja þessar kenndir.[7] Sagnfræðingurinn Guðmundur Hálfdanarson hefur velt því upp að Jón hafi sjálfur verið að reyna að vekja íslenska þjóðernishyggju til að styrkja sjálfstæðisbaráttu landsins.[8]