Jón Einarsson (skólameistari)

Jón Einarsson (d. skömmu eftir 1594) var skólameistari í Skálholti og síðan á Hólum seint á 16. öld. Hann var sonur séra Einars Eiríkssonar á Hvanneyri og Bergljótar Hallsdóttur konu hans.

Jón varð skólameistari Skálholtsskóla 1589 og var þar í tvö ár en þá stóð svo á að Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup sendi Arngrím Jónsson lærða, sem þá var skólameistari á Hólum, utanlands í erindum sínum, en taldi sig ekki hafa neinn sem gæti leyst hann af. Leitaði hann þá til Odds Einarssonar Skálholtsbiskups, sem sendi honum Jón Einarsson en setti Odd Stefánsson í stað hans.

Jón var skólameistari á Hólum til 1594 en kvæntist þá Salvöru (Sólvöru) Stefánsdóttur, sem var dóttir séra Stefáns Gíslasonar í Gaulverjabæ og systir skólameistaranna Odds og Sigurðar Stefánssona, og flutti sig að Álftártungu á Mýrum. Þar mun hann hafa dáið skömmu síðar en Salvör giftist aftur Erlendi Ásmundssyni sýslumanni á Stórólfshvoli. Jón og Salvör voru barnlaus.

Heimildir

  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14. árgangur 1893“.
  • „Skólameistararöð í Skálholti. Norðanfari, 59.-60. tölublað 1880“.