Jóhanna var einkabarn Hinriks 1., konungs Navarra, og konu hans Blönku af Artois, sonardóttur Loðvíks 8. Faðir hennar dó þegar hún var á öðru ári og varð hún þá drottning Navarra en móðir hennar var ríkisstjóri. Ýmsir, bæði innan og utan Navarra, reyndu að nýta sér þessa stöðu og leitaði Blanka því skjóls við hirð Filippusar 3. Frakkakonungs og ólst Jóhanna þar upp að mestu leyti. Hún hafði verið trúlofuð Hinrik, krónprinsi Englands, syni Játvarðar 1., frá fárra mánaða aldri en hann dó árið 1274, sjö ára að aldri.
Þegar Jóhanna var 11 ára, 16. ágúst1284, giftist hún Filippusi, krónprinsi Frakklands, sem þá var 16 ára. Filippus 3. faðir hans dó ári síðar og urðu þau þá konungur og drottning. Filippus konungur þótti glæsimenni og var kallaður Filippus fagri en Jóhanna er sögð hafa verið þybbin og fremur óásjáleg. Hún var hins vegar áræðin, framtakssöm og fylgin sér. Hún hafði þó engin áhrif á stjórnarhætti manns síns en beitti sér þeim mun meira í sínum eigin lendum í Navarra og Champagne og þegar greifinn af Bar gerði uppreisn gegn henni stýrði hún sjálf hernum sem mætti honum og fangaði hann. Jóhanna stofnaði líka háskóla í París, College de Navarre.
Jóhanna dó árið 1305, líklega af barnsförum. Hún átti fjögur börn sem upp komust, Loðvík, Filippus og Karl, sem allir urðu konungar Frakklands, og Ísabellu, sem varð drottning Englands. Þegar Jóhanna dó varð Loðvík, elsti sonur hennar, konungur Navarra. Konur áttu erfðarétt í Navarra en ekki Frakklandi og því hefði Jóhanna dóttir Loðvíks átt að erfa krúnuna þótt hún gæti ekki orðið drottning Frakklands en af ýmsum ástæðum var gengið framhjá henni. Hún varð þó drottning 1328 og þá slitnaði ríkjasambandið sem myndast hafði milli Navarra og Frakklands við giftingu Jóhönnu eldri og Filippusar 4.