Jón Helgason (stórkaupmaður)

Jón Helgason (11. september 18844. janúar 1968) var íslenskur stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Á yngri árum sínum var hann annálaður glímukappi.

Jón fæddist á Grund í Höfðahverfi í Suður-Þingaeyjarsýslu. Hann lærði skósmíði á Ísafirði og starfaði einnig inni í Djúpi. En úr Djúpinu lá leið hans aftur til Ísafjarðar og þaðan að tveimur árum liðnum til Akureyrar og Siglufjarðar, þar sem hann stundaði síldarvinnu og verslunarstörf fram undir tvítugsaldur. Jón tók þátt í Íslandsglímunni 1907 og var með 15 vinninga (jafn Fjalla-Bensa), en fyrir ofan þá voru aðeins Jóhannes Jósefsson og Emil Tómasson. Hann réðst í för með Jóhannesi Jósefssyni, er hann fór í víking við fjórða mann. Frá Íslandi héldu þeir fjórmenningar á brott í desembermánuði 1908, eftir að Jón hafði verið þátttakandi í grísk-rómverskri kappglímu í Bárunni í Reykjavík. Upp úr þessu fór Jón til Rússlands og kenndi m.a. lögreglunni í Odessu íslenska glímu. Þar giftist hann rússneskri aðalskonu sem hét Olga Olsofijeff, en móðir hennar var frönsk greifadóttir, de Gramond. Þegar Jón var búsettur í Pétursborg, var hann gerður að kennara í leikfimi og sundi við herforingjaskólann í borginni. Loks var hann skipaður í sex manna nefnd sem átti að hafa yfirumsjón með allri fimleikakennslu í ríki Rússakeisara. Jón var þegar hér var komið auðugur maður, en hann tapaði aleigu sinni í rússnesku byltingunni og kom snauður til Kaupmannahafnar árið 1920. Þar hóf hann sundkennslu, fór á verslunarnámskeið og sneri sér síðan að verslun og verksmiðjurekstri. Á skömmum tíma tókst honum að verða efnalega sjálfstæður að nýju, og var síðan meðal auðugustu Íslendinga í Danmörku. Í Danmörku kvæntist hann íslenskri konu, Kristínu Guðmundsdóttur, listmálara. Þau eignuðust einn son, Björn Jónsson, sem var viðskiptafræðingur.

Tenglar

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.