Hér hefur verið safnað saman á eina plötu fjórtán lögum af litlum plötum, sem hljómsveit Ingimars Eydal gerði á fyrstu árum SG-hljómplatna. Allar þessar litlu plötur eru ófáanlegar, en eftirspurn verið stöðug eftir þessu eða hinu laginu, því segja má, að hvert einasta lag, sem hljómsveit Ingimars Eydal flutti á þessum litlu plötum hafi slegið í gegn. Er það ekki hvað sízt að þakka hinum ágætu söngvurum, sem fylgt hafa hljómsveitinni, Þorvaldi Halldórssyni, Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Helenu Eyjólfsdóttur, en öll er þau að finna á þessari plötu. Af lögum Vilhjálms hafa aðeins verið valin tvö á þessa plötu, þar sem nýlega er komin út fjórtán laga plata með eldri lögum Vilhjálms, sem hann flutti á sínum tíma á litlum plötum.