Haukdælir

Haukadalur séð frá Laugarfjalli árið 2014.

Haukdælir voru ein helsta valdaætt landsins frá því á landnámsöld og fram undir lok 13. aldar. Þeir eru kenndir við Haukadal í Biskupstungum en komnir í beinan karllegg frá Ketilbirni gamla, landnámsmanni á Mosfelli í Grímsnesi. Teitur sonur hans er sagður hafa byggt fyrstur bæ í Skálholti. Sonur hans var Gissur hvíti Teitsson, sem kom mikið við sögu kristnitökunnar og var faðir Ísleifs Gissurarsonar, fyrsta biskupsins í Skálholti. Einn þriggja sona Ísleifs var Gissur Ísleifsson biskup en annar var Teitur prestur í Haukadal, fósturfaðir Ara fróða, og hann er talinn ættfaðir Haukdæla. Hallur, sonur Teits, átti að verða biskup í Skálholti en andaðist í Hollandi á heimleið frá Róm árið 1150. Hann átti einn son, Gissur Hallsson stallara Sigurðar konungs munns og síðar lögsögumann og fræðimann í Haukadal. Gissur átti fjölda barna, þar á meðal Magnús biskup, Hall ábóta á Helgafelli, Þuríði móður Kolbeins Tumasonar og Þorvald Gissurarson í Hruna (d. 1235), föður Gissurar Þorvaldssonar sem er þekktastur allra Haukdæla og varð jarl yfir öllu Íslandi.

Ekki er fullvíst hvenær Haukdælir höfðu náð öllum völdum í Árnesþingi en það hefur verið á 11. öld eða snemma á 12. öld og samsvaraði valdasvæði þeirra nokkurn veginn Árnessýslu eins og hún er nú. Á Sturlungaöld voru þeir ein af fáum áberandi valdaættum í landinu og voru lengst af í bandalagi við Ásbirninga gegn Sturlungum.