Síðar varð Hítardalur prestssetur og þótti eitt besta brauð landsins. Þar sátu margir merkisprestar og sumir þeirra voru þekktir fræðimenn. Þar má nefna séra Þórð Jónsson, sem þar var á 17. öld og skrifaði meðal annars ættartölurit sem voru gefin út árið 2008. Einn af þekktustu prestum í Hítardal var séra Jón Halldórsson, mikilvirkur sagnaritari sem var þar prestur frá 1691-1736. Hann skrifaði meðal annars biskupasögur, sögur skólameistara, hirðstjóra og fleiri og skráði Hítardalsannál. Synir hans voru Finnur Jónsson biskup og Vigfús Jónsson prestur og fræðimaður í Hítardal, sem skrifaði þar fyrstu íslensku barnabókina.