Geirólfsnúpur er fjall (433 m) sem gengur fram í sjó á milli Skjaldabjarnarvíkur í Árneshreppi og Sigluvíkur sunnan Reykjafjarðar. Milli þessara víkna er svo lágur háls á bak við fjallið sem nefnist ýmist Sigluvíkurháls (um 210 m) eða Skjaldarvíkurháls. Úr þessu skarði er kjörið að ganga á Geirólfsnúp. Fegursta útsýni er allt norður til Hornbjargs og suður til Drangaskarða.
Í Landnámu er sagt frá því að Geirólfur landnámsmaður hafi brotið skip sitt undir núpnum og sest þar að. Yst á nesoddanum er drangur sem kallaður er Biskup og áður fyrr var talað um að fara fyrir Biskup þegar siglt var fyrir núpinn. Neðan hans er sker sem líkist helst atgeir og hefur því verið nefnt Geirhólmi. Þar eru merki milli Ísafjarðarsýslna og Strandasýslu. Geirólfsnúpur er nyrsti hluti Strandasýslu.