Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 1800 fóru fram haustið 1800 þar sem Thomas Jefferson varaforseti Bandaríkjanna var kjörinn forseti eftir sigur á John Adams forseta Bandaríkjanna. Thomas Jefferson var forsetaefni Demókratíska Repúblikanaflokksins en Aaron Burr varaforsetaefni flokksins. Kjörmenn greiddu tvö atkvæði hver sem áttu að fara til sitthvors frambjóðandans en það var ekki nægilega skýrt hvort atkvæðið væri til forseta eða varaforseta. Það fór því svo að Thomas Jefferson og Aaron Burr enduðu báðir með 73 kjörmannaatkvæði en John Adams sitjandi forseti fékk 65. Það féll því í hlut Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kjósa á milli þeirra Jefferson og Burr en að lokum var Jefferson kjörinn forseti og Burr varð varaforseti þar sem reglurnar á þeim tíma gerðu ráð fyrir að sá sem fengi næst flest atkvæði yrði varaforseti. Eftir þessar kosningar voru gerðar róttækar breytingar á þeim ákvæðum stjórnarskrár sem snerta kjör forseta og varaforseta.