Félag lesblindra á Íslandi

Félag lesblindra á Íslandi (FLÍ) eru frjáls félagasamtök sem vinna að hverskonar hagsmunamálum lesblindra með það að markmiði að jafna stöðu þeirra, í leik, starfi og menntun.[1] Félagið vinnur markvisst að því að auka vitund og þekkingu á lesblindu á Íslandi.

Saga

Félag lesblindra á Íslandi var stofnað 26. mars árið 2003.[2][3] Í fyrstu stjórn félagsins voru skipuð þau Guðmundur Johnsen, formaður stjórnar; Helga Móeiður Arnardóttir, ritari; Snævar Ívarsson, gjaldkeri; Benedikt Halldórsson og Margrét Björk. Í varastjórn voru kjörin Fríða Kristín Magnúsdóttir, Einar Hrafn Jóhannsson, Bjarney Hafsteinsdóttir og Ólöf Jónsdóttir.[4]

Á stofnfundinum 2003 var einnig ákveðin að aðild að Öryrkjabandalagi Íslands. Gekk það eftir árið 2004. Sú aðild hefur verið félaginu stuðningur í gegnum tíðina.[5]

Fyrsti starfsmaður félagsins var Anna Lísa Björnsdóttir og starfaði hún á vegum félagsins launalaust fyrstu árin. Árið 2006 styrkti Velferðarsjóður barna á Íslandi félagið um 4.5 milljónir króna til að starfa að aukinni þekkingu á lesblindu. Það gerði félaginu kleift að ráða launaðan starfsmann í fullt starf til þess að sinna skólaheimssóknum og öðru félagsstarfi. [6][7]

Starf FLÍ

Félagið hefur á sínum vegum gefið út kennslu- og fræðsluefni um lesblindu í skóla og á vinnustöðum, hljóðbækur, heimildarmynd um lesblindu, sinnt kynningarstarfi í skólum og á vinnustöðum, framkvæmt viðhorfskannanir um lesblindu á Íslandi, og haldið ráðstefnur og fræðslufundi.[8]

Frá árinu 2008 hefur Félag lesblindra á Íslandi haldið úti skrifstofu í Reykjavík og starfsmanni sem situr meðal annars í samráðshóp á vegum menntamálaráðuneytisins um Hljóðbókasafn Íslands, sem og nefndum og ráðum Öryrkjabandalags Íslands. Þá tekur félagið þátt í samstarfi lesblindusamtaka í nágrannalöndum.[9]

Félag lesblindra er rekið með sjálfaflafé og styrkjum. Það nýtur ekki opinberra framlaga. Með aðstoð velunnara hefur félagið kostað kynningar- og fræðslustarf í gunnskólum, stutt við hugbúnaðargerð og staðið fyrir vísindaathugunum á sviði lesblindu á Íslandi.

Félagmenn voru í árslok 2020 um 2.000.

Enskt heiti félagsins er The Iceland Dyslexia Association.

Um lesblindu

Lesblinda (Dyslexía) er skert hæfni til að lesa skrifað eða prentað mál, þó að sjón og greind séu óskert.[10] Þessi röskun er talin sértækur námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna.[11] Áætlað hefur verið alþjóðlega að allt að 10 til 20 prósent fólks eigi í erfiðleikum með lestur og að mikill hluti þeirra sé lesblindur. Svipaðar tölur eiga við um umfang lesblindu á Íslandi. Samkvæmt könnun Félags lesblindra á umfangi lesblindu á Íslandi sem Capacent- Gallup framkvæmdi, eru um 18 prósent Íslendinga með lestrarörðugleika.[12]

Lesblinda er röskun eða námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna sem einkennist fyrst og fremst af því að viðkomandi á erfitt með nákvæman, sjálfvirkan lestur og slakri færni í stafsetningu og umskráningu.[13] Þennan vanda má í oftast rekja til erfiðleika við úrvinnslu málhljóða sem er ekki í samræmi við aðra vitsmunalega hæfni einstaklingsins og koma fram þrátt fyrir vandaða lestrarkennslu.[14]

Tenglar

Tilvísanir

  1. „fli.is - Heim“.
  2. Morgunblaðið (2. mars 2003). „Lesblinda og greind eiga ekkert skylt“. Árvakur. bls. 12. Sótt 2. mars 2021.
  3. „Nánar um félag [Félag lesblindra á Íslandi á vef Ríkisskattstjóra“.
  4. „Morgunblaðið: Félag lesblindra stofnað“. Árvakur. 30. mars 2003. bls. 40. Sótt 3. mars 2021.
  5. DV (15. desember 2017). „Félag lesblindra og merkileg starfsemi þess“. DV. Sótt 3. mars 2021.
  6. Morgunblaðið (7. apríl 2006). „Morgunblaðið: Velferðarsjóður barna styrkir Félag lesblindra“. Árvakur. bls. 6. Sótt 3. mars 2021.
  7. „Velferðarsjóður barna á Íslandi“. Sótt 3. mars 2021.
  8. FLÍ. „Um Félag lesblindra á Íslandi“. FLÍ. Sótt 1. mars 2021.
  9. FLÍ. „Um Félag lesblindra á Íslandi“. FLÍ. Sótt 1. mars 2021.
  10. Læknablaðið- 2001 Fylgirit 41 - Íðorðapistlar (2001). „Íðorðapistlar 1-130 -065-Dyslexia“. Læknafélag Íslands. Sótt 1. mars 2021.
  11. Sigríður Jóhannesdóttir (2010). „Dyslexía“ (PDF). Hug- og félagsvísindasvið, Háskólinn á Akureyri, Kennaradeild. bls. iii. Sótt 1. mars 2021.
  12. Félag lesblindra á Íslandi. „Um lesblindu“. Félag lesblindra á Íslandi. Sótt 2. mars 2021.
  13. Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir. „Lesvefurinn- um læsi og lestrarerfiðleika“. Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í samstarfi við Menntamálaráðuneytið. Sótt 1. mars 2021.
  14. Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir. „Lesvefurinn- um læsi og lestrarerfiðleika“. Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í samstarfi við Menntamálaráðuneytið. Sótt 1. mars 2021.