Estadio Gran Parque Central

Estadio Gran Parque Central eða einfaldlega Parque Central er knattspyrnuleikvangur í Montevideo og heimavöllur félagsliðsins Nacional. Völlurinn kom við sögu á HM 1930 og fór annar af tveimur fyrstu leikjum í sögu heimsmeistaramótsins þar fram.

Saga

Leikdagur á Parque Central.

Parque Central er veigamikið mannvirki í sögu Úrúgvæ og á sögufrægum slóðum. Leikvangurinn var reistur árið 1900 á sama stað og þjóðhetjan José Artigas var útnefndur leiðtogi þjóðarinnar árið 1811. Í millitíðinni hafði helsti nautaatshringur Montevideo verið á svæðinu.

Völlurinn var tekinn í notkun árið 1900 og hýsti þá félagið Deutscher Fussball Klub í knattspyrnumóti Úrúgvæ sem hóf göngu sína sama ár. Fyrsti leikurinn var á milli Deutscher Fussball Klub og Central Uruguay Railway Cricket Club, sem lauk með sigri þeirra síðarnefndu. Nöfn liðanna gefa góða vísbendingu um mikilvægi útlendinga á upphafsskeiði fótboltans í landinu.

Deutscher Fussball Klub var starfsmannalið þýska sporvagnafyrirtækisins Tranvias a la Union y Maroñas, sem átti einmitt lóðina sem völlurinn reis á. Íþróttasvæðið samanstóð af tveimur knattspyrnuvöllum og fjórum tennisvöllum. Ári síðar samdi sporvagnafélagið um að Nacional fengi afnot af hinum fótboltavellinum og hefur félagið leikið á svæðinu til þessa dags.

Þótt miklar breytingar hafi átt sér stað á leikvangnum í gegnum tíðina eru nokkrir hlutar hans enn upprunalegir.

Parque Central var stærsti leikvangur Úrúgvæ til ársins 19930 þegar Estadio Centenario var tekinn í notkun. Nýi völlurinn átti að vera tilbúinn fyrir fyrstu heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu en framkvæmdir töfðust vegna mikilla rigningar. Því þurfti að breyta áætlunum og leika sex viðureignir á Parque Central, þar á meðal annan opnunarleikinn. Þar mættust Bandaríkin og Belgía. Á sama tíma fór önnur viðureign milli Frakka og Mexíkó fram á Estadio Pocitos.