Claudio Paul Caniggia (fæddur 9. janúar 1967), er fyrrverandi knattspyrnumaður frá Argentínu sem gerði garðinn frægan á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Hann lék samtals 50 leiki með landsliði Argentínu, þar með talið á tveimur heimsmeistaramótum, þ.e. á Ítalíu árið 1990 og í Bandaríkjunum árið 1994 og skoraði þar fjögur mörk í átta leikjum.
Hann lék með ýmsum félagsliðum í Argentínu, á Ítalíu, í Portúgal og Skotlandi á ferli sínum, svo sem River Plate, Boca Juniors, Roma, Benfica og Rangers. Caniggia varð stórstjarna eftir frækilega frammistöðu með Argentínu á heimsmeistaramótinu á Ítalíu árið 1990 þar sem hann skoraði sigurmark Argentínu í 1-0 sigri gegn Brasilíu í 16. liða úrslitum mótsins. Hann lét hafa eftir sér síðar að þetta mark, sem hann skoraði í uppbótartíma eftir sendingu frá Diego Maradona, væri það mikilvægasta á knattspyrnuferlinum. Í undanúrslitunum mætti Argentína gestgjöfunum Ítölum og þar jafnaði Caniggia með marki í seinni hálfleik en Argentína vann síðan leikinn í vítaspyrnukeppni eftir framlengingu. Caniggia fékk gult spjald í leiknum og var því í banni í úrslitaleiknum gegn Þýskalandi sem Argentína tapaði 1-0. Á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum árið 1994 skoraði Caniggia tvö mörk, bæði í opnunarleik Argentínu gegn Nígeríu.
Caniggia var ekki valinn í lið Argentínu fyrir heimsmeistaramótið í Frakklandi árið 1998, að sögn vegna þess að hann neitaði að láta skerða sítt hár sitt í samræmi við reglur þjálfara liðsins. Hann var valinn í liðið fyrir heimsmeistaramótið í Suður-Kóreu árið 2002 þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára gamall, en sat á varamannabekknum allt mótið. Hann fékk rautt spjald fyrir að blóta dómaranum af varamannabekknum í síðasta leik Argentínu gegn Svíþjóð og varð þar með fyrsti leikmaður á heimsmeistaramóti til að sæta brottrekstri af varamannabekk.
Caniggia var góðvinur knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona. Lífsstíll þeirra félaga þótti ekki til fyrirmyndar fyrir atvinnuknattspyrnumenn, en Caniggia bæði reykti og neytti ólöglegra vímuefna. Hann var á árinu 1993 dæmdur í 13 mánaða keppnisbann á Ítalíu eftir að leifar af kókaíni fundust í blóði hans eftir óvænt lyfjapróf. Þetta orðspor varð Bjarna Felixsyni, íþróttafréttamanni á Ríkissjónvarpinu, tilefni til að nefna þá félaga Maradona og Caniggia "kókaínbræður" í lýsingu við leik Argentínu á heimsmeistaramótinu árið 1994. Þegar Caniggia var tekinn af velli í leiknum sagði Bjarni "Og þá eru þeir báðir komnir af velli, kókaínbræðurnir”, en Maradona var þá farinn heim af mótinu eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.[1]
Tenglar
https://thesefootballtimes.co/2018/11/15/the-speed-flair-and-drugs-of-claudio-caniggia-an-icon-who-lived-on-the-edge-of-greatness/
- ↑ https://www.visir.is/g/2018795662d