Cambuslang Football Club var skoskt knattspyrnufélag, stofnað árið 1874 í samnefndu úthverfi Glasgow. Félagið var meðal stofnenda skosku deildarkeppninnar en hætti keppni eftir tvær leiktíðir.
Saga
Cambuslang Football Club var stofnað árið 1874 af hópi pilta. Sagan segir þó að þeir hafi fyrst þurft að keppa við samnefnt drengjalið um réttinn til að bera heitið og unnið 6:0 sigur.
Árið 1879 var Cambuslang í hópi nokkurra knattspyrnuliða í grenndinni sem komu á laggirnar knattspyrnusambandi Lanakrshire County. Sambandið stóð fyrir héraðsmóti, Lanarkshire Cup sem Cambuslang vann tvisvar en lék fjórum sinnum til úrslita áður en félagið gekk til liðs við knattspyrnusamband Glasgow fyrir leiktíðina 1887-88.
Árið 1888 komst Cambuslang alla leið í úrslit skosku bikarkeppninnar í fyrsta og eina sinn eftir að hafa unnið Abercorn F.C. í undanúrslitum, 10:0 eftir að liðin höfðu áður skilið jöfn. Ekki reyndist ferðin í úrslitin á Hampden Park ferð til fjár þar sem Renton var sigurorð með sex mörkum gegn einu. Cambuslang varð hins vegar sama ár fyrsta liðið til að vinna Glagow-bikarkeppnina eftir sigur á Rangers í úrslitum.
Skoska deildarkeppnin hóf göngu sína keppnistímabilið 1890-91. Cambuslang hafnaði í fjórða sæti að þessu sinni. Árið eftir endaði Cambuslang í næstneðsta sæti og þar sem ákveðið hafði verið að fækka keppnisliðunum úr tólf í tíu, var frekari deildarþátttaka úr sögunni. Síðar var annarri deild bætt við en Cambuslang sóttist ekki eftir þátttöku í henni. Sögu félagsins telst lokið árið 1898.