C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.