Austurdalur

Monikubrú í Austurdal

Austurdalur er dalur í innsveitum Skagafjarðar. Um hann rennur Austari-Jökulsá, önnur upptakakvísla Héraðsvatna. Eina búseta í dalnum er að Bústöðum en kirkja er að Ábæ.

Landafræði

Austari-Jökulsá setur svip sinn á allt umhverfið, þar sem hún rennur heldur vestan við miðjan dal, þó dalurinn sé nokkuð þröngur. Innst í dalnum rennur hún á eyrum, en þegar kemur niður að Skatastöðum myndar hún alldjúpt gljúfur sem hún kastast um alla leið niður þar sem hún sameinast Vestari-Jökulsá og saman mynda þær Héraðsvötn. Víða í þessu gljúfri eru birkihríslur og eru þar stundaðar flúðasiglingar. Milli Skatastaða og Bústaða, en báðir bæirnir eru vestan ár, er brú yfir ánna, oft kölluð Monikubrú eftir skörungnum Moniku á Merkigili.

Nokkrar þverár renna í Jökulsá, eiga þær flestar upptök sín í Nýjabæjarfjalli sem skilur dalinn frá inndölum Eyjafjarðar. Eru þetta meðal annars Ábæjará, Tinná, Hvíta, Fossá og fleiri.

Hið hrikalega Merkigil nyrst í dalnum var lengi vel helsti farartálmi fyrir fólk í austanverðum dalnum þegar það ferðaðist í kaupstað í Skagafirði. Upp úr því að sunnanverðu er einstigi fyrir klettasnös eina svo ekki var hægt að flytja ullarlestar til verslunar í Skagafirði heldur fóru lestarferðir yfir Nýjabæjarfjallið til Eyjafjarðar. Var þá komið niður í Leyningsdal og ullin seld á Akureyri. Þegar bæjarhúsin að Merkigili voru byggð var allt efni í þau flutt á hestum yfir gilið og sáu dæturnar 7 um það. Árið 1997 beið Helgi Jónsson, síðasti bóndi á Merkigili, bana í gilinu er hann hrapaði þar á leið til fundar við nágranna sinn sem beið hans handan gilsins. Þjóðskáldið Bólu-Hjálmar reisti sér nýbýli í dalnum sem hann nefndi Nýjabæ og bjó þar um skeið.

Jurtalíf í dalnum er fjölbreytt og hann nokkuð gróinn upp í hlíðar. Í Fögruhlíð er náttúrulegur birki- og víðiskógur þar sem hæstu trén eru um 6 metra há. Í giljum og áreyrum vex hvönn og eyrarrós.

Bæir

Í austanverðum dalnum voru bæir á borð við Merkigil, Ábæ, Nýjabæ, Tinnársel og Hildarsel. Í dalnum vestanverðum eru Bústaðir og Skatastaðir.

Myndasafn

  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.