Hann fæddist líklega í Colle Val d'Elsa í Toskana. Lítið er vitað með vissu um ævi hans og talið að hann hafi rekið nokkrar ólíkar vinnustofur með fjölda aðstoðarmanna. Því er erfitt að greina stíleinkenni á höggmyndum sem eru eignaðar honum. Hann starfaði lengi í Róm þar sem honum eru eignuð mörg verk, en 1294 vann hann í Flórens þar sem hann var aðallega þekktur sem arkitekt. Samkvæmt Giorgio Vasari gerði hann styttur fyrir neðri hluta framhliðar dómkirkjunnar sem var eyðilögð 1589. Eins er til tilgáta um að hann hafi teiknað kirkjuna Santa Croce, en það er umdeilt. Samkvæmt Vasari gerði hann líka borgarskipulag fyrir San Giovanni Valdarno.