Andspyrnuhreyfing gegn her í landi

Andspyrnuhreyfing gegn her í landi voru skammlíf baráttusamtök gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og herstöðinni á Miðnesheiði. Þau voru stofnuð dagana 5. til 7. maí árið 1953 á Þjóðarráðstefnu gegn her í landi sem haldin var í Mjólkurstöðinni í Reykjavík. Helsti forystumaður hreyfingarinnar var rithöfundurinn Gunnar M. Magnúss.

Aðdragandi og starfsemi

Rökrétt er að líta á stofnun Andspyrnuhreyfingar gegn her í landi sem beint viðbragð við stofnun Þjóðvarnarflokksins um miðjan marsmánuð 1953. Þingkosningar stóðu fyrir dyrum í lok júní og Sósíalistaflokkurinn búist við að njóta góðs af sérstöðu sinni í andstöðu við hersetuna. Þjóðvarnarflokkurinn veitti óvænta samkeppni um fylgi andstæðinga hersins og gagnrýndi Sósíalista hart fyrir hollustu við Sovétríkin.[1]

Rithöfundurinn Gunnar M. Magnúss skrifaði nokkrar greinar í Þjóðviljann þar sem hvatt var til stofnunar samtaka gegn hernum. Fjöldi félaga, einkum aðildarfélaga Sósíalistaflokksins og verkalýðsfélaga þar sem flokksmenn höfðu yfirráð í, komu að skipulagningu Þjóðarráðstefnu í byrjun maí þar sem Andspyrnuhreyfingin var stofnuð. Á ráðstefnunni voru samþykktar ýmsar ályktanir, svo sem mótmæli við íþróttakappleikjum Íslendinga og bandarískra hermanna og gegn rekstri útvarpsstöðvar hersins.[2] Þá var sérstaklega varað við klofningshreyfingum á borð við Þjóðvarnarflokkinn og kjósendur hvattir til að kjósa þá frambjóðendur eina sem lagt hafi baráttu herstöðvaandstöðunnar lið.[3]

Gunnar M. Magnúss tók fjórða sætið á framboðslista Sósíalistaflokksins í Reykjavík í kosningunum þetta sama sumar. Flokkurinn tapaði nokkru fylgi frá fyrri kosningum og mátti Gunnar sætta sig við varaþingmannssæti.

Talsvert dofnaði yfir starfsemi Andspyrnuhreyfingarinnar eftir kosningarnar. Á árinu 1954 efndu þau til undirskriftarsöfnunar gegn hersetunni, en sú söfnun virðist hafa runnið út í sandinn.

Fylgd

Lag tónskáldsins Sigursveins D. Kristinssonar við ljóðið Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson var frumflutt á stofnþingi Andspyrnuhreyfingarinnar gegn her í landi þann 6. maí 1953. Það varð þegar eitt vinsælasta sönglag herstöðvabaráttunnar.[4]

Tilvísanir

  1. Sverrir Jakobsson: „Þættir úr sögu þjóðvarnar 1945-1963“, Dagfari, 1. tbl. 2000 ([1])
  2. „Þjóðarráðstefna gegn her í landi“, Þjóðviljinn, 10. maí 1953 ([2])
  3. „Ályktun þjóðarráðstefnunnar“, Nýi tíminn, 14. maí 1953 ([3])
  4. „Sigursveinn D. Kristinsson skólastjóri minning“, Morgunblaðið, 13. maí 1990 ([4])