Amerísk hörpuskel einnig nefnd Atlantshafs djúpsjávar hörpuskel (fræðiheiti: Placopecten magellanicus) er af diskaætt. Fisktegundir og hryggleysingjar ganga gjarnan undir mismunandi nöfnum víða um heim og villir það oft fyrir hinum almenna áhugamanni. Ameríska hörpuskelin er uppruninn í Atlantshafinu og nær frá Labrador til Norður-Karólínu.
Heimkynni
Ameríska hörpuskelin lifir á miðsævis sjó. Norður af Þorskhöfða heldur skelin sig á mjög grunnu vatni eða á um það bil tuttugu metrum. Suður af Þorskhöfða getur skelin lifað á 40- 200 metra dýpi. Ameríska hörpuskelin þrífst betur í svölum sjó Norður-Atlantshafsins. Í hvíld liggur skelin á sandbotni eða leðjubotni.
Útlit
Hörpuskelin hefur tvær skeljar sem loka dýrið af og festast þær saman með vöðva sem kreppir skelina saman. Vöðvinn sem kreppir skelina saman er sá biti í skelinni sem er borðaður. Inni í skeljunum eru mjúk líffæri dýrsins svo sem meltingarfæri og tálkn sem og taugakerfi. Skelin hefur hrjúfar brúnir að utanverðu. Efri hluti skeljarinnar er yfirleitt fölbleikur eða brúnn og neðri hluti skeljarinnar er hvítur og kremaður. Lítil prósenta, eða um 5-10 % skeljarinnar eru albínóar, með hvítan efri og neðri hluta. Stærð Amerísku hörpuskeljarinnar getur verið frá 10 cm til 23 cm en meðalstærð skeljarinnar er 15 cm.
Hrygning
Ameríska hörpuskelin getur fjölgað sér á öðru aldursári en framleiðir þó ekki mörg egg eða sæði fyrr en á fjórða aldursári. Hörpuskelin er mjög frjó, kvendýrið getur framleitt hundruð milljóna eggja á ári. Hörpuskelin hrygnir vanalega seint eða snemma á haustin. Skelin hrygnir einnig að vori, sérstaklega í Mið-Atlantshafi. Eftir að eggin klekjast út sveima lirfur skeljarinnar í sjónum í fjórar til sex vikur áður en þær setjast á sjávarbotninn. Margar tegundir fiska og hryggleysingja éta lirfurnar til dæmis þorskur, krabbi og humar.
Veiðar
Samkvæmt NOAA er ástand skeljarstofnsins gott og skelin veidd á ábyrgan hátt. Veiðar á Amerísku hörpuskelinni eru meðal mestu skelveiða í heiminum. Árið 2008 var um það bil 25.000 tonnum af skelbitum landað í Bandaríkjunum og var aflaverðmætið tæplega 37 milljarðar. Á hverju fiskveiðiári, sem hefst 1. mars, er skelveiðibátunum í Bandaríkjunum úthlutaður viss fjöldi daga til að sækja veiðar. Á mynd 1 má sjá veiðar á hörpuskel frá 1950-2014 í Kanada,Bandaríkjunum og Sankti Pierre og Miquelon. Veiðar í Sankti Pierre og Miquelon eru svo litlar að þær eru ekki sjáanlegar á myndinni. Þó er gott að vita að þar eru stundaðar hörpuskelsveiðar. í kringum 2000 aukast veiðar á hörpuskel gríðarlega og ná toppi árið 2004. Eftir árið 2004 fara aflatölur aftur niður og haldast nokkuð stöðugar í nokkur ár. 2014 fara aflatölurnar hratt niður því væri gaman að skoða nýjustu gögn frá FAO og sjá hversu miklum afla af hörpuskeljum er landað í dag.
Skeljarveiðarnar fara fram á vorin, sumrin og á veturna. Á veturna er mjög litlum afla landað þar sem flestir skelveiðibátar hafa klárað dagafjölda sinn á vorin og yfir sumartímann. Veiðafærið sem er notað við hörpuskelsveiðar heitir plógur. Plógurinn er dreginn á eftir bátnum og reynir hörpuskelin að sleppa en endar síðan í plógnum. Hefbundin hörpuskelsplógur er smíðaður úr járni.
Líftími
Ameríska hörpuskelin vex mjög hratt á sínum fyrstu árum og verður hún kynþroska á fjórða aldursári. Miðað við þær upplýsingar sem unnið er með hér er annarsvegar sagt að lífaldur hennar sé sex til átta ár og í öðrum upplýsingum 20 ár. Ef til vill er hann mismunandi eftir svæðum.
Afurðir
Hörpuskelin er hágæða afurð. Ameríska hörpuskelin er seld fersk í maí, júní, júlí og ágúst þegar veiðar standa sem hæst. Hún er einnig seld frosin í mun meira mæli. Hefbundin eldunaraðferð er að steikja skelbitann á pönnu upp úr smjöri en þó eru til fjölmargar aðrar leiðir til að elda skelbitann.