Alexander Lúkasjenkó

Alexander Lúkasjenkó
Аляксaндaр Лукашэнка
Alexander Lúkasjenkó árið 2019.
Forseti Hvíta-Rússlands
Núverandi
Tók við embætti
20. júlí 1994
ForsætisráðherraMíkhaíl Tsjígír
Sergej Líng
Vladímír Jermoshín
Gennadíj Novítskíj
Sergej Sídorskíj
Míkhaíl Mjasníkovítsj
Andrej Kobjakov
Sjarhej Rúmas
Roman Golovtsjenko
ForveriMjetsjyslav Hryb (sem formaður Æðstaráðs Hvíta-Rússlands)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. ágúst 1954 (1954-08-30) (70 ára)
Kopys, hvítrússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Hvíta-Rússlandi)
StjórnmálaflokkurBelaja Rús (óformlega)
Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1979–1991)
MakiGalína Zhelnerovítsj (g. 1975)
Börn3
Undirskrift

Alexander Grígorjevítsj Lúkasjenkó (hvítrússneska: Алякса́ндр Рыго́равіч Лукашэ́нка; rússneska: Алекса́ндр Григо́рьевич Лукаше́нко; f. 30. ágúst 1954) er fyrsti og núverandi forseti Hvíta-Rússlands. Hann hefur gegnt embættinu frá því að það var stofnað þann 20. júlí 1994.

Æviágrip

Lúkasjenkó er kennari að mennt og hafði verið virkur í ungliðahreyfingu hvítrússneska kommúnistaflokksins. Áður en hann hóf virka þátttöku í stjórnmálum var Lúkasjenkó aðstoðarframkvæmdastjóri samyrkjubús, framkvæmdastjóri ríkisbús og hafði gegnt þjónustu í sovéska landamæraverðinum og sovéska hernum.[1] Hann var eini hvítrússneski þingmaðurinn sem kaus á móti sjálfstæði landsins frá Sovétríkjunum árið 1990.

Lúkasjenkó bauð sig fram í fyrstu lýðræðislegu forsetakosningum Hvíta-Rússlands eftir sjálfstæði árið 1994. Fyrir kosningarnar var víða búist við því að forsætisráðherrann Vjatsjeslav Kebítsj, sem hafði stýrt landinu frá sjálfstæði þess, ætti sigur vísan en Lúkasjenkó steig fram sem baráttumaður gegn spillingu og tókst að höfða til hvítrússneskra kjósenda sem voru óánægðir með dræman efnahag og hægan gang umbóta í stjórnkerfinu. Í kosningabaráttunni sakaði Lúkasjenkó Kebítsj um að vera fulltrúi gamallar valdaklíku og lofaði að lækka verðbólgu, koma á verðstöðvun, stöðva einkavæðingu fleiri ríkisfyrirtækja, útrýma spillingu og koma á nánara sambandi við Rússland.[2]

Á tíunda áratugnum hélt Lúkasjenkó á lofti hugmyndum um endursameiningu Hvíta-Rússlands og Rússlands[3] en í seinni tíð hefur hann lagt áherslu á mikilvægi fullveldis Hvíta-Rússlands, ekki síst vegna versnandi sambands hans við ríkisstjórn Rússlands.

Lúkasjenkó var mótfallinn því að innleiða efnahagslega frjálslyndisvæðingu í vestrænum stíl eftir fall kommúnismans og undir stjórn hans eru flestir mikilvægustu iðnaðir Hvíta-Rússlands því enn ríkisreknir. Hvíta-Rússland hefur forðast einkavæðinguna sem var framkvæmd í stórum stíl í flestum öðrum Sovétlýðveldum eftir hrun Sovétríkjanna. Ríkisstjórn Lúkasjenkós hefur einnig viðhaldið mestöllu myndmáli og útliti Sovéttímans, sérstaklega í herskrúðgöngum á evrópska sigurdeginum. Vestrænir andstæðingar Lúkasjenkós kalla hann gjarnan „síðasta einræðisherra Evrópu“.[4] Andstæðingar Lúkasjenkós fullyrða að ekkert ríki í Evrópu hafi jafnmarga leyniþjónustu- og lögreglumenn á sínum snærum miðað við höfðatölu og Hvíta-Rússland.[5] Lúkasjenkó hefur réttlætt stjórnarhætti sína með því móti að þeir hafi bjargað Hvíta-Rússlandi frá glundroða og komið í veg fyrir að fátækt og fáveldi festi þar rætur líkt og í öðrum fyrrum Sovétlýðveldum.

Frá árinu 2006 hafa Evrópusambandið og Bandaríkin öðru hverju beitt Hvíta-Rússland efnahagsþvingunum fyrir mannréttindabrot ríkisstjórnarinnar.[5] Samband Hvíta-Rússlands við vesturveldin batnaði hins vegar að nokkru leyti um skeið eftir að Lúkasjenkó gagnrýndi hernám og innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 og hélt friðarráðstefnu milli Rússa og Úkraínumanna til að freista þess að binda endi á átökin í Úkraínu.[5]

Hins vegar veitti hann her Rússa landsvæði til innrásar á Úkraínu árið 2022.

Mótmæli og stjórnarkreppa frá 2020

Eftir forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi þann 9. júní árið 2020 var Lúkasjenkó lýstur sigurvegari gegn stjórnarandstæðingnum Svetlönu Tsíkhanovskaju. Samkvæmt opinberum talningum var Lúkasjenkó endurkjörinn með um 80,23% atkvæða.[6] Almennt hefur þó verið efast um að kosningarnar hafi verið löglegar og því hafa fjöldamótmæli farið fram gegn áframhaldandi stjórn Lúkasjenkós frá kosningunum. Um er að ræða fjölmennustu mótmæli í sögu landsins.[7] Tsika­novska­ja flúði til Litáen í kjölfar kosninganna af ótta um líf sitt og líf barna sinna. Stjórn Lúkasjenkós hefur mætt mótmælunum af hörku og hafði þann 17. ágúst handtekið um 7.000 manns auk þess sem tveir höfðu látið lífið.[8]

Evrópusambandið hætti að viðurkenna Lúkasjenkó sem lögmætan forseta þann 24. september 2020 vegna misferlis í kosningunum og harðræðis gegn mótmælendum.[9] Vegna mótmælanna í kjölfar kosninganna 2020 hefur stjórn Lúkasjenkós einangrast frá nágrannaþjóðum sínum og neyðst til þess að reiða sig að nýju á stuðning Rússlandsstjórnar Vladímírs Pútín. Lúkasjenkó varð enn háðari Pútín frá maí 2021 eftir að stjórn Lúkasjenkós beitti falskri sprengjuhótun og orrustuþotum til að neyða farþegaflugvél Ryanair á leið til Litháen til að lenda í Hvíta-Rússlandi. Tilgangur þeirrar aðgerðar var að handtaka hvítrússneska blaðamanninn Raman Pratasevitsj, sem hafði átt þátt í mótmælum gegn hvítrússnesku stjórninni.[10] Forstjóri Ryanair sakaði Lúkasjenkó í kjölfarið um að standa fyrir „ríkisstyrktu hryðjuverki“.[11]

Tilvísanir

  1. Jón Ólafsson (7. mars 1999). „Meta forsetann meira en sjálfstæðið“. Morgunblaðið. bls. 12.
  2. „Lukashenko og Kuchma sigra“. Morgunblaðið. 12. júlí 1994. bls. 14.
  3. „Þjóð í greipum fortíðar“. mbl.is. 22. febrúar 2003. Sótt 16. október 2018.
  4. „Gengið til kosninga í síðasta einræðisríki Evrópu“. blaðið. 16. mars 2006. Sótt 16. október 2018.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Hvítrússar kjósa þaulsætinn forseta“. RÚV. 11. október 2015. Sótt 31. október 2018.
  6. Bogi Ágústsson (10. ágúst 2020). „Tsíkhanovskaja neitar að viðurkenna ósigur“. RÚV. Sótt 17. ágúst 2020.
  7. „Stærstu mót­mæli í sögu Hvíta-Rúss­lands“. mbl.is. 16. ágúst 2020. Sótt 17. ágúst 2020.
  8. Jónas Atli Gunnarsson (17. ágúst 2020). „Framtíð Lúkasjenkó óviss“. Kjarninn. Sótt 17. ágúst 2020.
  9. „ESB viðurkennir ekki Lúkasjenkó sem forseta“. mbl.is. 24. september 2020. Sótt 4. júní 2021.
  10. „Lukasjenko á allt undir Pútin“. Varðberg. 30. maí 2021. Sótt 4. júní 2021.
  11. Þorvarður Pálsson (25. maí 2021). „Sak­ar stjórn­völd í Hvít­a-Rúss­land­i um hryðj­u­verk“. Fréttablaðið. Sótt 4. júní 2021.

Tenglar