Akrópólishæð

Akrópólishæð í dag

Akrópólishæð (gríska Ακρόπολη Αθηνών, Akropole Aþenon) í Aþenu er þekktasta háborg heimsins. Hún rís 150 m yfir sjávarmáli í borginni og er 3 hektarar að flatarmáli. Þekktasta hof háborgarinnar er Meyjarhofið (gríska: Παρθενών, Parþenon).

Saga

Goðsagan

Guðirnir voru búnir að skipta á milli sín öllu Grikklandi og Póseidon og Aþena voru að rífast um það hvort þeirra ætti að vera guð borgarinnar, sem við þekkjum nú sem Aþenu, svo íbúarnir efndu til keppni á Akrópólishæð. Sá guð sem gæfi þeim betri gjöf yrði guð borgarinnar.

Póseidon byrjaði og stakk þríforkinum sínum í jörðina og út kom sjór og lofaði þeim góðum viðskiptum sjóleiðis. Íbúar borgarinnar voru orðnir þreyttir á sjóorrustum og voru því ekki svo hrifnir af sjónum því að hann minnti þá of mikið á stríð. Síðan kom Aþena og stakk stafnum í Akrópólis og upp óx ólívutré. Íbúarnir voru mjög hrifnir, því að tréð táknaði ræktun og velmegun.

Þá varð Aþena gerð að verndargyðju borginnar og borgin nefnd í höfuðið á henni. Þeir heiðruðu og virtu Póseidon samt sem áður jafn mikið. Hofið Erekþeion var notað til að dýrka báða þessa guði.

Fyrir tíma Períklesar

Erekþeion

Fyrir meira en 2300 árum síðan byggðu Forn-Grikkir mestu hofin og fallegustu stytturnar úr marmara. Hin falllegustu voru þó þau hof sem voru byggð á Akrópólishæð. Frumbyggjar Aþenu byggðu fyrir um 4000 árum veggi um Akrópólishæð og bjuggu til einhvers konar virki. Þar ríktu fyrstu konungarnir. Fyrir 2500 árum byrjuðu að rísa hin fyrstu hof og altari Aþenu. 90 árum síðar fundu Lakeddónarnir Akrópólishæð þakta marmarahofum og híbýlum. Þeir eyðilögðu híbýlin en stoppuðu í lotningu og skildu hofin eftir í heilu lagi. Árið 480 f.Kr. eyðlögðu Persarnir allt á Akrópólishæð og drápu verndara hennar. En á aðeins 13 árum höfðu Þemistókles og Kímon hreinsað burt rústirnar og endurbyggt veggina.

Períkles

Períkles (495429 f.Kr.) var mikils metinn stjórnmálamaður í Aþenu. Í hans tíð blómstraði Aþena og er sá tími oft kallaður öld Períklesar. Períkles tók við af Þemistóklesi við að byggja Akrópólis árið 447 f.Kr. Hann fékk höggmyndarann Feidías til þess að hafa umsjón yfir uppbyggingunni en sjálfur hafði hann yfirumsjón. Einnig fékk hann arkitektana Iktinos og Kallíkrates með í verkið. Á þessum tíma, 5. öld f.Kr., náði Akrópólishæð þeirri lögun sem hefur haldist til dagsins í dag.

Akrópólis seinni tíma

Í Frelsisstríði Grikkja sem var háð á árunum 18211830 dundi tvívegis fallbyssuhríð á Akrópólishæð. Helst skemmdist Erekþeion en Meyjarhofið varð líka fyrir skemmdum en þó eru enn nokkrar flatamyndir hofsins á sínum stað. Í dag hefur hluti af súlunum verið endurreistar og yfirbyggingin sett upp eftir upphaflegri mynd. Meyjarhofið hefur misst alla sína litadýrð en það er ákaflega fagurt í skjóli nætur þegar máninn varpar birtu sinni á það. En Akrópólis er nú að keppast við enn stærri öfl en nokkru sinni áður því mengunin í Aþenu er að eyðileggja hofin. Nú er verið að laga og endurbæta hofin, auk þess að minnka mengunina.

Hofin

Afstöðumynd af Akrópólis

Listi yfir helstu hof og staði á Akrópólishæð:

  1. Meyjarhofið
  2. Eldra hof Aþenu
  3. Erekþeion
  4. Stytta Aþenu Promakkosar
  5. Propylaea
  6. Hof Aþenu Nike
  7. Elevsinion
  8. Helgistaður Artemisar Brauróníu
  9. Kalkoþeca
  10. Pandroseion
  11. Arreforion
  12. Altari Aþenu
  13. Helgidómur Seifs Polieifar
  14. Helgistaður Pandion
  15. Odeon Herodesar Attícusar
  16. Stóa Evmenesar
  17. Helgistaður Asklepíosar
  18. Leikhús Díonýsosar Elevþereifs
  19. Odeon Períklesar
  20. Temenos Díonýsosar Elevþeireifs
  21. Algaureion

Tengt efni

Heimildlir

Tenglar

  • Enn stendur Akrópólis; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1985
  • Gengið á Akrópólis; grein í Morgunblaðinu 1962
  • „Hvað er akrópólis og hvaða tilgangi þjónaði staðurinn hjá Grikkjum?“. Vísindavefurinn.