Ahmad bin Ali leikvangurinn (Arabíska: ملعب أحمد بن علي) er knattspyrnuvöllur í borginni Al Rayyan í Katar. Hann var vígður 18. desember 2020 á þjóðhátíðardegi Katar og tekur um 50 þúsund áhorfendur.
Leikvangurinn var fyrst og fremst reistur fyrir HM 2022, þar sem hann mun hýsa sex leiki í riðlakeppninni og eina viðureign í 16-liða úrslitum.
Völlurinn er nefndur eftir Ahmad bin Ali Al Thani, sem var emír í Katar frá 1960-72. Eldri völlur með sama nafni, sem reistur var árið 2003, þurfti að víkja vegna byggingarframkvæmdanna og var leitast við að endurnýta sem mest af byggingarefninu við framkvæmdirnar. Félagsliðin Al-Rayyan og Al-Kharitiyath nýta völlinn fyrir heimaleiki sína.
Leikvangurinn hýsti fjórar viðureignir í Arabamótinu í knattspyrnu í árslok 2021 og var einnig notaður í heimsmeistarakeppni félagsliða árið 2020.