Þóra Gunnarsdóttir

Legsteinn Þóru Gunnarsdóttur í Hólakirkjugarði.

Þóra Gunnarsdóttir (4. febrúar 18129. júní 1882) var prestsfrú á Eyjardalsá í Bárðardal og Sauðanesi á Langanesi á nítjándu öld en er þekktust fyrir að vera stúlkan sem Jónas Hallgrímsson orti kvæðið Ferðalok til.

Ævi

Þóra var fædd á Esjubergi á Kjalarnesi, dóttir Gunnars Gunnarssonar stúdents frá Laufási við Eyjafjörð, þá biskupsritara, og Guðrúnar Jónsdóttur vinnukonu. Þau voru ógift og var Þóra fóstruð á bæjum á Kjalarnesi og í Reykjavík á kostnað föður síns en frá níu ára aldri var hún í fóstri hjá Sigurði Thorgrímsen landfógeta og Sigríði Vídalín konu hans. Þegar afi hennar, sem var prestur í Laufási, lést 1828 fékk faðir hennar brauðið og tók hann þá Þóru með sér norður, en hún var þá sextán ára. Samferða þeim varð Jónas Hallgrímsson, þá 21 árs, og tókust ástir með þeim Þóru á leiðinni. Jónas var á leið til móður sinnar sem bjó á Steinsstöðum í Öxnadal. Áður en leiðir skildi bað hann séra Gunnar um hönd Þóru en presturinn taldi þau of ung og óráðin og sagði að þau gætu beðið um sinn. Svo fór að ekkert varð úr sambandi þeirra, enda hvarflaði hugur Jónasar brátt í aðra átt en sagt er að Þóra hafi séð mjög eftir honum.

Þóra giftist séra Halldóri Björnssyni á Eyjardalsá 1834, en sonur hans af fyrra hjónabandi var Björn Halldórsson prestur í Laufási, faðir Þórhalls Bjarnarsonar biskups. Þau eignuðust eina dóttur, Sigríði. Sagt er að þegar kvæði Jónasar, Ferðalok, sem segir frá samfylgd þeirra Þóru norður sumarið 1828, birtist í Fjölni 1845, hafi það verið lesið upp í brúðkaupsveislu þar sem Þóra var stödd og hafi henni orðið svo mikið um að hún hafi lagst í rúmið og legið þar það sem eftir var dags. Jónas var nýlátinn þegar þetta var.

Séra Halldór lést 1869 og um haustið sama ár flutti Þóra til Sigríðar dóttur sinnar, sem var gift Jóni Benediktssyni bónda á Hólum í Hjaltadal, og dvaldi þar til æviloka. Hún bjó þar í litlu húsi út af fyrir sig og sinnti hjúkrun, sat yfir sjúklingum, bjó um beinbrot og bruggaði grasalyf. Hún bjó við fremur kröpp kjör en tengdasonur hennar, sem erft hafði stórfé eftir foreldra sína, sóaði öllum eignum sínum og endaði á að sníkja mat af tengdamóður sinni og taka í óleyfi út í reikning hennar.

Heimildir

  • „„Síðustu ár Þóru Gunnarsdóttur." 19. júní. 10. árgangur 1960“.
  • „„Varð hún harmþrungin mjög ..." Morgunblaðið, 8. desember 2007“.