Ási í Bæ

Ástgeir Kristinn Ólafsson (27. febrúar 1914 – 1. maí 1985), betur þekktur sem Ási í Bæ, var íslenskur tónlistarmaður og rithöfundur. Móðir hans var Kristín Jónsdóttir og faðir Ólafur Ástgeirsson, sem var þekktur bátasmiður í Eyjum, og bjuggu þau að Litlabæ í Vestmannaeyjum.

Ungur að aldri byrjaði hann sjóróðra með föður sínum á opnum vélbáti. Á unglingsárum veiktist hann af þrálátri beinátu í hægra fæti, sem hrjáði hann alla ævi, og var rúmliggjandi í heilt ár á þessum aldri vegna sjúkdómsins. Hann óttaðist að geta ekki stundað sjómennsku framar en um leið og hann hafði jafnað sig hélt hann á fiskimiðin á ný.

Hann útskrifaðist úr Samvinnuskólanum 1940. Hann vann sem skrifstofumaður í Vestmannaeyjum um hríð en starfaði þó lengst af á sjónum oftast sem matsveinn eða háseti. Hann eignaðist vélbátinn m/b Herstein ásamt öðrum félaga sínum 1955. En árið 1959 keypti hann vélbátinn m/b Ugga. Hann varð snemma aflakóngur og var talinn í flokki mestu færamanna á Eyjamiðum. Árið 1968 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og vann þar sem ritstjóri Spegilsins.

Ási var landskunnur texta- og lagasmiður, vísnasöngvari og afkastamikill rithöfundur og lét mikið að sér kveða en þó sérstaklega eftir hann lét af sjómennsku. Hann var í þeim margrómaða mannræktarkvartett með Árna úr Eyjum, Lofti Guðmundssyni og Oddgeiri Kristjánssyni, sem kallaðir eru feður hinna sígildu þjóðhátíðarlaga. Samstarf þeirra Ása í bæ og Oddgeirs varð víðfrægt og úr því urðu til landsþekkt lög, t.d. „Sólbrúnir vangar“ og „Ég veit þú kemur“.

Hann skrifaði margar bækur og rit m.a. Sá hlær best þar sem hann fjallar um lífsbaráttu sína, Granninn í vestri sem er ferðabók um Grænland, Breytileg átt sem er skáldsaga, Eyjavísur og smásagnasafnið Sjór, öl og ástir. Hann gaf einnig út hljómplötu þar sem hann söng og spilaði eigin lög og texta.

Eiginkona Ása var Friðmey Eyjólfsdóttir. Hann lést í Reykjavík, 71 árs að aldri, vorið 1985.

Tenglar